Mjónan

föstudagur, október 28, 2005

Dagurinn í dag

ég veit eiginlega aldrei hvað ég á að hafa sem titil á þessum bloggum þannig að núna ætla ég bara að láta það heita eitthvað þó svo að það hafi engin áhrif á innihaldið...

en ég fór ss uppá Reykjalund um daginn og var meðal annars vigtuð og var mjög glöð að sjá á að vigtin þar er alveg heilu kílói léttari en mín vigt þannig að ég er búin að léttast um 44 kg síðan ég kom þangað 1. des í fyrra. Ég er auðvitað alveg rosalega ánægð með árangurinn og minni mig stöðugt á að vera þakklát og fara ekki að klúðra neinu.
Mér finnst samt svo fyndið hvað ég á fleiri "feita daga" núna heldur en þegar ég var 131 kg - þá ýtti ég þessu held ég bara frá mér og reyndi frekar að sjá einhverja sem voru feitari en ég og bara allt til þess að þurfa ekki að feisa vandamálið. Í dag þá er ég alls ekki feitari en meðal íslensk kona og einmitt enginn sem tekur neitt sérstaklega eftir mér þegar ég er á meðal fólks. Ég sit samt ennþá svoldið föst í því að hugsa að hitt og þetta sé vegna þess að ég sé feit, ef einhver er dónalegur við mig eða hundsar mig þá dettur mér alltaf fyrst í hug að það sé vegna þess að ég sé feit - en málið er að það getur ekki verið vegna þess af því að ég er ekki skilgreind "FEIT" lengur.
Ég veit t.d. alveg að ég er komin úr buxum í stærð 54 í buxur 14-16 sem er auðvitað geggjað en þá allt í einu fer alveg í taugarnar á mér að vera ekki í buxnastærð 8 eða 10 - ég meina´ða, hefði mig grunað að ég myndi hugsa svona fyrir ári síðan þá hefði ég sennilega slegið mig sjálfa utan undir... svona er maður nú skrítinn.

Mér finnst líka gaman hvernig ég er hætt að spá í hvernig fólk í kringum mig er vaxið. Fyrir ári síðan hefði ég pælt svakalega í hvort einhver í kringum mig væri örugglega ekki aðeins feitari en ég, eða bara með stærri rass en ég eða með feitara andlit eða bara eitthvað til að réttlæta minn eigin vöxt og ég spáði líka rosalega í því hvort fólk væri að fitna eða grennast. Í dag þá sé ég þetta ekki og það finnst mér vera mjög gott. Þetta skiptir mig engu máli lengur, ég er að hugsa um mig og engan annan. Ég er líka svo mikið að reyna að fókusa á að verða heilbrigð og geta gert allt sem mig langaði að gera og geta gert allt sem dóttur minni langar að gera, ekki vera takmörkuð útaf fitunni. Þess vegna langar mig svo að losna við þessa feitu daga úr hausnum og vera bara ánægð alltaf....

ég held samt að þetta hljóti að koma allt saman, það eru nú ekki nema 11 mánuðir síðan ég var 131 kg og gersamlega að drepa mig úr offitu og svo í dag - orðin venjuleg !!!!!!!!

föstudagur, október 07, 2005

Veturinn alveg að koma

Jæja,

Þá er veturinn alveg að koma og skólinn kominn á tvöfaldan hraða. Ég er búin að missa svolítið úr vegna leikskólavandræða hjá litlu snúllunni minni en það er ss komið í lag og þessi vika búin að fara öll í aðlögun og það tekur sko alveg tímann frá manni - en algerlega nauðsynlegt að taka þátt í þessu með henni - enginn skóli eða nokkuð annað hefði verið þess virði að missa af þessu.

En annars er bara fínt að frétta - ég er búin að fara til London síðan ég skrifaði síðast - smá impulsive ferð með vinkonu og aðallega sniðin að verslunum og verslunum og verslunum. Við fórum út til að versla og gerðum það svo sannarlega. Ég fann þvílíka frelsið að leita ekki eins og brjálæðingur að einhverju sem var í stærri stærðum og vera svo vonsvikin að finna ekkert - ég gat verslað í þeim búðum sem ég fór inn í þó að ég hafi orðið fyrir dálitlum vonbrigðum með H&M. Ég á ekki í erfiðleikum með að finna boli og nærföt og allt sem teygist en þegar kom að skyrtum og jökkum og þess háttar - ekki séns, ég þarf ennþá 48 að ofan ef það er engin teygja en er í 46 að neðan en eins og eðlilegt er þá eru þær stærðir alltaf búnar því að fólk er bara orðið feitara en það var... ég lenti meira að segja í því í einni búðinni að maður fór að segja mér í hvaða búð ég gæti fundið "stóru stærðirnar" ég varð ekki ánægð heldur lallaði mér bara yfir í Next og fann allt sem mig langaði í án þess að líða eins og fílamanninum.

Annars var þetta algerlega ný upplifun fyrir mig á svo margan hátt - í fyrsta lagi...þeir sem eru mjóir og eru að kvarta yfir flugsætum - haldiði kjafti... mér fannst eins og ég væri að ferðast á Saga Class - ÞVÍLÍKUR MUNUR og þetta var með Iceland Express - meiriháttar og svo var mjög skrítið að fara í Fríhöfnina og kaupa ekkert nammi :-)

En annars ganga hlutirnir bara sinn vanagang - ég er farin að finna mjög mikið hvað hefur hægst á þyngdartapinu - ég er búin að vera endalaust lengi að komast niður fyrir 90 kg en það tókst í morgun - vigtin sýndi 89,7 sem þýða 41 kg farin og koma aldrei aftur.
Ég stefni á að komast í 75 og helst halda mér á bilinu 73-78 í framtíðinni.... en það mun örugglega taka langan tíma og miklu erfiðara en hefur verið hingað til.
Ég er byrjuð að hreyfa mig í Sporthúsinu og finnst alveg ótrúlegt hvað það er mikill munur á líkamanum - ég finn ekkert til að þarf miklu lengri tíma núna til að svitna og verða móð - bara gott.
Ég komst að þeirri niðurstöðu um daginn að mér þyrfti ekki endilega að finnast þetta það skemmtilegasta sem ég gerði til þess að fara heldur væri þetta bara hlutur eins og að mæta í vinnuna eða skólann - maður bara gerir það og ekkert væl....

Jæja - verð að halda áfram að læra, er að fara í brúðkaup á morgun og í fyrsta sinn ætla ég að láta sjá mig in public með bera handleggi (verð í ermalausum kjól) við skulum sjá hvernig það gengur :-)

Bæ í bili

miðvikudagur, september 21, 2005

Ég er að hugsa....

.... um að blogga aðeins

Ég er búin að vera í svolítilli bloggpásu vegna þess að mér fannst ég ekki hafa svo mikið að segja.

ég er komin í -39 til 40 kg (fer eftir hvaða dag ég vigta mig). Hlutirnir hafa gengið bara mjög vel, ég er alveg hætt að æla ef ég borða eitthvað sem inniheldur ögn af fitu. Ég er farin að þola miklu fleiri matartegundir og sumar verr - ég er t.d. allt í einu hætt að þola skyr og fæ rosalega illt í magann ef ég borða smá skyr.

Ég hef svoldið dottið í það að narta á kvöldin - sérstaklega þegar ég hef ekki verið nógu dugleg að borða yfir daginn. Ég er farin að prufa mig áfram í mat sem inniheldur ekki sykur og ekkert hvítt hveiti. Ég hef aðeins verið að breyta mat sem ég gerði áður þannig að hann innihaldi bara hollustu. Ég baka t.d. núna bara úr lífrænu spelt hveiti og splenda sem er sætuefni og það er bara mjög gott - mér finnst ég ekki vera að fara á mis við neitt.

Mér finnst svo fyndið hvað það er mikill dagamunur á sálinni manns. Ég stend mig stundum að því að finnast ég vera orðin bara mjög fín en aðra daga er ég ennþá 130 kg og finnst voðalega lítið sjást á mér.
Ég er samt að reyna að vera raunhæf og minna mig á að ég hef farið niður um 4-5 fatastærðir og það er alveg ágætt.

Það er eitt sem mér finnst fyndið að ég er oft að gleyma því að ég hafi grennst - ég hitti mann um daginn sem ég hafði ekki séð síðan dálítið fyrir aðgerð og hann hváði og spurði bara hvað hefði gerst og það tók mig alveg smá tíma að átta mig á hvað hann var að meina - mér fannst það mjög fyndið.

Annars finnst mér sjálfstraustið aukast hægt og bítandi - það kemur oftar fyrir að ég minni mig á að ég sé orðin "venjuleg" en svo kemur það auðvitað upp að eitthvað gengur illa og þá hugsa ég stundum "þetta er nottulega af því að ég er svona feit" - gamall varnarháttur sem var notaður í svooooo mörg ár :-)

Jæja, ég vona að ég verði ekki jafn lengi að blogga næstu færslu - ef einhver dettur ennþá inná síðuna þ.e.

sjáumst
Mjóna

föstudagur, júlí 15, 2005

Komin út úr kílóaskápnum

... enda kominn tími til...

ég er núna loksins komin í 2ja stafa tölu - búin að missa 31 kg og vonast til að léttast um 25-30 kg í viðbót

föstudagur, júlí 08, 2005

Smá bloggpása

Ég er búin að taka mér smá pásu frá bloggi og reyndar bara smá sumarfrí... ekkert nema gott um það að segja..
Vigtin stóð sig alveg í fríinu, búin að missa tæp 29 kg í heildina. Ég hef ekki verið dugleg að hreyfa mig og ótrúlega erfitt að byrja aftur þegar maður dettur úr gírnum - en það hlýtur að fara að koma.
Ég var í bústað í viku og fann ótrúlega fyrir því þar hvað maður er vanur því að sukka í svoleiðis ferðum. Fyrst var ég eiginlega bara fúl yfir því að mega ekki éta á mig gat en svo þegar ég upplifði samviskubitslausa viku þá leið mér svo þúsund sinnum betur og var alveg þess virði.
Ég er búin að hakka í mig grillkjöt og hef komist að því að lambakjöt fer langbest í mig, ég hefði ekki trúað því áður en kjúklingurinn veldur mér yfirleitt velgju og ég hef reynt að hvíla hann smá. Ég hef samt ekki verið dugleg að elda fisk - það er eitthvað með sumrið og kjötið... ekkert nema venjur sem maður þarf að taka á.
Ég er farin að þola matinn betur finnst mér. Á tímabili fannst mér ég ekki gera neitt nema æla en svo fór ég að hugsa meira um hvað er í matnum og helst ekki borða neitt sem ég ekki elda sjálf eða veit nákvæmlega hvað er í og það hefur alveg verið að virka.
Um daginn kom sending í vinnunna sem áður hefði sent mig í himnaríki - fullur poki af nammi frá Nóa og Síríus.. yfir öllu lá bókstaflega súkkulaðiský og varði þetta í rúmlega 2 daga... fyrst fór þetta eitthvað smá í taugarnar á mér en svo áttaði ég mig á því að mig langaði í rauninni ekki það mikið í og eftir það tók ég varla eftir herlegheitunum.... ég hef aðeins verið að smakka á low carb súkkulaði og svo einhverju sem er sykurlaust en það er auðvitað einhver fita í þessu en mér finnst fínt að fá mér einn og einn bita þegar ég er orðin mjög orkulaus og þá er ég voðalega sátt.

Annars er ég hætt að obsessa á vigtinni eins og ég gerði - farin að vera mun rólegri og panikka ekki ef ég léttist ekki á milli vikna... enda finnst mér árangurinn vera orðinn það góður að ég þarf ekki að hugsa eins mikið um þetta - ég hef ekki verið svona létt síðan ég var 16 ára (er 29 í dag) og það er bara ekki svo slæmt

laugardagur, júní 11, 2005

Litlir sigrar

Tíminn flýgur og kílóin með...

í síðustu viku fóru 2,1 kg sem var algert met. Ég veit ekki hverju er að þakka, góðu veðri, meiri hreyfingu eða kannski það að ég hætti að telja prótein, kaloríur og þess háttar - sennilega sambland af þessu öllu.
Ég lít á tímann núna sem tíma litlu sigranna. Ég fór um daginn í sund, eitthvað sem ég hef ekki gert í næstum 2 ár. Ég fór í sturtu á líkamsræktarstöðinni, annað sem ég hef ekki gert í herra háans tíð - það þýðir samt ekki að ég æfi og fari sveitt í vinnuna, heldur hef ég haft tímann þannig að ég geti farið beint heim og í sturtu. Í dag fór ég svo í kvennahlaupið í allra fyrsta sinn, labbaði 5 kílómetra og var dúndurhress.

Þegar ég var nýbúin í aðgerðinni keypti ég buxur sem ég féll fyrir en til að vera sniðugt hafði ég þær 2 númerum minni en ég þurfti þá og í dag var fyrsti dagurinn sem ég notaði þær - annar lítill sigur fyrir mig.

föstudagur, maí 27, 2005

Aldeilis komin á flug

Jæja, eftir langa langa langa langa bið þá fór vigtin allt í einu á flug. Ég léttist um 1,1 kg í síðustu viku og bætti svo bara um enn betur og er búin að missa 1,1 kg í viðbót síðan á þriðjudag - LOKSINS.... þetta finnst mér gaman

Ég byrjaði að vinna allan daginn í þessarri viku og það gengur bara vel. Ég finn alveg mun á því hversu vel ég slaka á heima hjá mér en ég gerði oft áður. Ég hef oft átt erfitt með svefn og tek á mig allar heimsins áhyggjur þegar flestir loka augunum og fljúga inní draumalandið. Þetta hefur oft valdið mér mikilli syfju og þreytu. Ég var auðvitað heima í alveg 5 vikur og náði á þeim tíma að endurbyggja rythmann. Ég er fljótari á fætur og ég fer að sofa þegar ég fer að sofa.
Svo er ég auðvitað mun meðvitaðri um stressið, ég læt það ekki hafa áhrif á mig eins og ég gerði vegna þess að ég veit að nýi maginn minn þolir það ekki - þannig að ég lít á þetta sem persónulegan sigur fyrir mig á andlega sviðinu.

Annars hefur bara gengið ágætlega að borða. Ég hef aðeins verið að borða kjöt, annað en kjúkling, og það hefur gengið svona upp og niður. Ég virðist þola hakk alveg en svo um daginn var grillað og ég var ekkert alltof ánægð með svínakjötið.
Ég hef tvisvar sinnum í vikunni ælt vegna þess að ég hef borðað annað hvort eitthvað sem ég þoli ekki eða hreinlega borðað of hratt, en það virðist vera mitt aðal vandamál - að borða of hratt.
Ég bjóst við að vera heltekin af löngun í hitt og þetta, sérstaklega eftir fljótandi tímabilið, en það virðist ekki vera neitt vandamál - ein peruskyr.is hljómar oft bara bestasta máltíð :-) en ég er ekki viss um að þetta verði alltaf svona, en í staðinn fyrir að hafa bilaðar áhyggjur af því núna hef ég ákveðið að taka á því ef að því kemur.

Ég er búin að vera á fullu í hittingum í vikunni. Á miðvikudag hittust hluti af þeim sem voru með mér á Reykjalundi (öllum var samt boðið) og það var svo gaman að sjá hvað við vorum allar orðnar svo sætar og mjóar. Merkilegt hvað okkur virðist ganga vel svona í heildina. Síðan á fimmtudag var það "súmó saumó" og það var þræl gaman. Þrátt fyrir að vera nýbúnar í aðgerð, löngu búnar í aðgerð, á leið á Reykjalund og ennþá langt frá Reykjalundi þá náum við svo vel saman - þekkjum mörg sömu vandamálin og fáum líka fullt af ráðum hvor frá annarri.